Velkomin á heimasíðuna okkar !

Dísa,Emil,Benóný Ísak og dýrin.

11.01.2022 10:47

Minningarorð Óttars á Kjalvegi.

Ég fékk þann heiður að fá að fylgja góðum vin honum Óttari Sveinbjörnssyni þann 6 jan,var
hann jarðsunginn frá Ingjaldshólskirkju. Ég hef þekkt Óttar frá því að ég var krakki enda var 
hann tíður gestur inn í Mávahlíð hjá pabba og Steina og auðvitað snerist allt um kindur,hrúta
og ræktun. Ég var ekki gömul þegar ég átti mín fyrstu viðskipti við hann enda var hann mikill
kaupmaður og samdi við mig að fá að kaupa hjá mér eina gimbur undan kind sem ég átti í 
Fögruhlíð og hét Rósalind og var svartflekkótt og þessi gimbur var alhvít og falleg og ég átti það til þegar ég var krakki að kalla alhvítar kindur bleikar því þær voru með svo fallega bleikar nasir og það fannst honum ekki rétt að segja og leiðrétti mig að kindur gæti ekki verið bleikar heldur væru þær mjallahvítar eða alhvítar og þetta tók ég gilt og full af áhuga að ekki skyldi ég segja bleikar kindur heldur alhvítar. Skondið hvað maður man suma hluti og tekur vel eftir þeim enda bar ég virðingu fyrir honum og leit upp til hans.

Ég á líka minninguna um þegar geimverur áttu að lenda á Snæfellsjökli þá fórum við með 
Óttari á stóra bílnum hans held það hafi verið brúni Ford Econoline er samt ekki alveg viss
en ég man bara að við fórum með honum og biðum eins og margir aðrir en aldrei komu neinar geimverur he he.

Við áttum svo auðvitað margar ferðir í búðina til Óttars og Írisar í Blómsturvelli sem var án efa flottasta verslun á nesinu og margir áttu leið sína hingað vestur bara til að koma og kíkja
á Blómó. Mamma átti mörg vöruskiptin við Óttar og pabbi lét hann hafa lömb og þá gat 
mamma fengið nýja hrærivél mjög hentug viðskipti þegar kaupmaðurinn var rollu bóndi.

Mér þótti mjög vænt um núna seinustu ár hvað leiðir okkar Óttars héldu áfram saman og við
höfðum tengingu í gegnum sauðfjárræktina og mér fannst alltaf ég halda minningu pabba
og Steina nær mér þegar Óttar kíkti í kaffi til okkar Emils á kvöldin og við rifjuðum upp
gamla tíma og spjall um kindur og ræktun auðvitað sem átti hug okkar allann. Ég mun
sakna heimsókna hans og hafa hann sem keppinaut því það var langskemmtilegast hjá okkur að bera okkar bækur saman og keppa okkar á milli það var aðal stemmingin.

Enda var það honum mjög erfitt að hætta búskapnum síðast liðið haust vegna heilsunar
en honum til mikilla gleði hélt hann nokkrum eftir í umsjá Péturs Steinars barnabarn síns
svo hann gæti fengið að fylgjast með og leiðbeina, enda algjört gull að varðveita slíka ræktun.

Óttar var mikil keppnismaður og áhuginn og metnaðurinn svo mikill að það var aðdáunarvert
að hlusta á hann og læra af honum. Hann kenndi mér að vera hörð að sía út það sem ekki virkar og ekki vera halda bara í litina því ég var nú ansi litaglöð þegar ég byrjaði fyrst eftir að ég tók við af pabba en sem betur fer voru það samt góðar ær og skiluðu góðu.

Ég notaði þetta svo oft á hann og heyri hann hlægja þegar ég skrifa þetta niður hvað segiru
Óttar hvað áttu margar hvítar kindur núna he he því hann var orðinn ansi litaglaður og litirnir hjá honum voru orðnir fleiri en hjá mér og í meirihluta miðað við hvítu ærnar en það var nú bara því það var orðið jafngott fé eins og það hvíta. ´

Óttar átti ofboðslega vænt og fallegt fé og einkenndi það mikil þyngd og lærahold.
Hann var bóndi frá toppi til táar og ræktun hans til fyrirmyndar.

Hér má sjá grein sem birtist í Skessuhorni í október 2013 


Grána heggur nærri heimsmetinu

"Ef Dimma bakarans í Borgarnesi hefur skilað Íslandsmeti í afurðum, hefur hún Grána mín trúlega hoggið nærri heimsmetinu," segir Óttar Sveinbjörnsson kaupmaður og tómstundabóndi á Hellissandi. Grána er fimm vetra ær í eigu Óttars. Hún skilaði sér til réttar í haust með þrílembingana sína rígvæna. Hrútlömbin vógu 55 og 57 kíló og gimbrin 52 kíló. Alls vega því þrílembingarnir undan Gránu 164 kíló eða 24 kílóum meira en þrílembingar hinnar gráu Dimmu, Sigurgeirs Erlendssonar bakara í Borgarnesi, sem greint var frá í Skessuhorni í síðustu viku. Aðspurður segist Óttars þó ekki ætla að tilkynna þetta til heimsmetabókar Guinness. "Grána hefur alltaf skilað góðum afurðum og verið til skiptis tvílembd eða þrílembd," segir Óttar sem hefur verið tómstundabóndi í 50 ár eða meira.  

Hann segir að Grána hafi borið 4. maí í vor og verið á beit í þjóðgarðinum í sumar. Lömbin eru undan sæðingahrútnum Grábotna og munu öll verða sett á í haust. Gimbrin verður á fóðrum hjá Óttari í vetur ásamt móður sinni, en hrútarnir tveir voru seldir norður í Skagafjörð. Þar mun ætlun bænda að ná genum úrvals fjárstofns á Snæfellsnesi inn í sína ræktun, að sögn Óttars Sveinbjörnssonar. 


Ég hef oft heimsótt Óttar í fjárhúsin hans í gegnum árin og á dágott safn af myndum af ásettningi

hans og aðrar myndir og ég tók hér aðeins smá myndar minningar sem mig langði

að deila með ykkur. Ég votta ástvinum Óttars mínu dýpstu samúð og hlýhug.



Hér er Óttar með besta veturgamla hrútinn árið 2010 held það sé rétt hjá mér að hann hafi heitið

Morgun. Hann var með 19 í læri og 87 stig.


Hér er hann virkilega fallegur og mikill hrútur þessi mynd var tekin þegar hann var eldri.


Hér er Óttar svo með gullið sitt hann Klett en honum var hann mest stoltur af og batt miklar vonir

við hann. Klettur var besti veturgamli hrúturinn árið 2011. Hann á enn mikla afkomendur víða um

landið og hefur verið að skila mikilli gerð og feikna kindum. Óttar hafði oft orð á þvi að dæturnar 

undan honum mjólkuðu svo mikið að þær gátu fengið júgurbólgu út frá því að ná ekki að tæmast.


Hér er svo klettur svakalega gleiðhyrndur, þrekvaxinn og mikill hrútur.


Hér eru Bárður og Dóra með farandsskjöldinn fagra fyrir besta lambhrútinn 2017 og átti hann ættir

í Klett hans Óttars svo hann fékk heiðurinn að vera með þeim á verðlaunamyndinni enda átti hann

stóran þátt á bak við ræktunina með þeim Bárði og Dóru. Þessi hrútur fékk nafnið Skjöldur.

Ég held að þessi stund hafi verið honum afar kær og hann hafi verið uppfullur af stolti.


Hér erum við á Aðalfund Búa 2013 að taka móti verðlaunum árið 2013. 

Óttar var oftar en ekki kallaður upp að taka á móti verðlaunum fyrir afrakstur sinn í sauðfjárræktinni.


Hér er önnur mynd af öðrum Búa fundi að taka á móti verðlaunaskjölum.


Hér er Óttar í fjárhúsunum á Kjalvegi að sýna okkur Emil hvernig gjafgrindin virkar.


Þessi kind var í miklu uppáhaldi bæði hjá mér og Óttari mér fannst hún svo falleg á litinn og líka var hún að skila afburðar góðum lömbum.


Hér er Óttar að kalla í féið sitt og láta þær elta bílinn upp að fjárhúsum á Kjalvegi.


Hér er hann á sauðburði að fara sýna mér lömbin og er að fara hrista brauðpokann svo þær komi.


Þessi var tekin að hausti og má sjá þær koma til hans að gæða sér á brauði.


Hér má sjá vinina Kristinn Bæjarstjóri, Óttar og Haukur á Vatnsenda. Þetta er hrútasýning inn í 

Bjarnarhöfn.


Hér mikið fjör á hrútasýningu veturgamla á Mýrum árið 2010.


Hér er Óttar og Gunnar frá Fáksrúðarbakka á héraðssýningu lambhrúta árið 2012.


Þessi mynd er tekin inn í Bjarnarhöfn árið 2012 á héraðssýningu lambhrúta.


Fannst þessi mynd eitthvað svo táknræn að lokum kindurnar hans að hlaupa á Kjalveginum með

Ingjaldshólskikju toppinn í baksýn svo frjálsar og glaðar að hlaupa út í frelsið. 







Flettingar í dag: 353
Gestir í dag: 47
Flettingar í gær: 1520
Gestir í gær: 208
Samtals flettingar: 729994
Samtals gestir: 48736
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 05:04:30

Um okkur

Nafn:

Dísa,Emil,Benóný Ísak, Embla Marína og Freyja Naóm

Farsími:

8959669,8419069

MSN netfang:

Disa_99@hotmail.com

Afmælisdagur:

17 júní 1982,1 apríl 1985, 19 ágúst 2009. 28 Mars

Heimilisfang:

Stekkjarholt 6

Staðsetning:

355 Ólafsvík

Heimasími:

4361442

Um:

Sjúkleg áhugamanneskja um sauðfjárrækt og allt sem henni tengist. Mikið um rollur á þessari síðu og örlítið um hesta og hænur og allskyns sveitalíf. Svo má ekki gleyma fjölskyldunni því það er auðvitað reglulega sett myndir og blogg af börnunum og daglegu lífi okkar.

Tenglar

Tenglar

Tenglar