Hér er Embla og Erika að klappa Snæós og Melkorku.
Búið að vera svo yndislegt veður hjá okkur allan nóvember.
Arnar kom til okkar 18 nóvember og tók af kindunum og það er alltaf jafn flott að sjá hvað hann er góður við þetta
og hann er svo rólegur og yfirvegaður og svo snöggur.
Hér eru Kristinn,Emil og Siggi. Kristinn og Emil skiptast á að draga og skella niður og Siggi sér um að flokka ullina.
Ég sá um að koma með mat fyrir þá í hádeginu og svo tók Ronja upp á því að vera veik þessa helgi svo ég var mikið til heima með
hana en við náðum svo að gefa öllum ormalyf líka þennan sama dag.
Hér er verið að gefa ormalyfið. Við gleymdum sprautunni heima sem skammtar ofan í þær svo ég var með glas og dró upp í stóra sprautu
og gaf Sigga og Kristinn til að gefa þeim og Emil var á hleranum.
Hér er hann Diskó hann er fæddur 2021. Við höfum ekki notað hann nema lítið því hann er frekar skyldur okkar kollótta fé en hann er undan Tón sæðingarstöðvarhrút og Vaíönu sem er móflekkótt kind hjá okkur undan Kaldnasa sem við fengum hjá Laugu og Eyberg Hraunhálsi og var undan Magna og Urtu.
Óli Ólafsvík hefur verið að nota Diskó meira en við og fengið fín lömb undan honum og við líka. Hann er að gefa miklar mjólkur ær og einstaklega gæfar.
Diskó er alveg einstaklega gæfur hrútur og krakkarnir elska hann og vilja helst ekki láta hann frá sér þau geta kallað á hann úti og þá kemur hann til þeirra til að fá klapp.
Hann var 88 stig sem lamb og er með 11 fyrir gerð og 8 fyrir fitu í kynbótamati en núna erum við komin með ARR hrút sem er undan sömu kind og hann svo við verðum að fá reynslu á þann nýja og þurfum því að gefa Diskó annað heimili svo endilega ef þið hafið áhuga á að fá hann Diskó okkar hafið samband við mig Dísu í skilaboðum eða hringið í 8419069. Hann getur bara farið í Snæfellsneshólf og hann getur gefið alla grunnliti og tvílit og mórautt og hreinhvítt hann er hreinhvítur sjálfur stór og mikill hrútur. Hann er með gulan fána samkvæmt arfgerðar greiningu. Faðir hans Tónn er með gulan og gráan og móðir hans er með ljósbláan fána.
Hér er betri mynd af honum.
Það er svo yndislegt hvað krökkunum finnst gaman að koma með okkur í fjárhúsin og eru svo dugleg að hjálpa til.
Þær eru farnar að vera svo duglegar að taka stór föng að þær eru farnar að taka jafn mikið og ég.
Embla með risa fang svo dugleg.
Fórum með Gumma,Óla og Sigga á sæðingarfundinn sem var haldinn á Lyngbrekku.
Hér er Torfi og Árni að kynna fyrir okkur hrútana og útskýra allt þetta nýja með ARR.
Núna hefjast miklar pælingar hjá manni að velja hrúta og hvort eigi bara að nota hrúta með breytileika og verandi gen.
Það var gaman að sjá að Jón Viðar og Lárus Birgisson mættu á fundinn.
Jón Viðar tók svo ræðu um ARR og ráðlagði bændum að fara á fullu í að nota ARR hrútana og koma þessum genum sem fyrst inn í allann stofninn sinn svo það væri hægt að komast hjá miklum kostnaði við að þurfa sýnataka á hverju ári og vinna hratt af því að gera Ísland riðulaust. Hann fór líka vel í að menn ættu að vera óhræddir við að skyldleika rækta svona fyrst meðan væri verið að koma þessum arðgerðum inn í stofninn. Hann hafði líka orð á því að það þyrfti ekki nema fara inn á fjárvís í íslenska stofninn og þar sést að það er mikið til komið allt fé út frá nokkrum ærfeðrum og svo koll af kolli svo er það fljótt að blandast þegar lengra er komið af stað. Jón Viðar er sá allra vitrasti og hefur gríðanlega mikla reynslu og þekkingu á íslensku sauðfé svo auðvitað tekur maður mark á því sem hann segir og reynir að fylgja því sem hann ráðleggur því hann er algjört átrúnaðargoð hjá okkur bændum.
Ég persónulega vill ekki glata allri ræktun með því að nota eingöngu þessa hrúta en þó kemur að þessir ARR hrútar sem eru á stöðunni voru margir að koma mjög vel út og eru af flottum búum svo það ætti alveg vera góður kostur að nota þá en ég ætla líka að halda áfram að nota mína hrúta og reyna stýra þannig inn að ég noti þá á ær sem eru með breytileika svo það séu meiri líkur á að þær verði með verndandi en svo eigum við líka einn ARR hrút og einn með ljósbláan fána og munum nota þá á þær ær sem þeir geta farið á. Við áttum enga kind með áhættu gen en það eru þó nokkrar með gulan fána sem sagt hlutlaust en það voru líka margar með breytileika gráan og ljósbláan fána.
Við ættum að geta leitt þetta vel inn hjá okkur því við létum arfgerðargreina allar kindurnar okkar í fyrra svo við vitum hvað hver og ein er með og getum því stýrt vel hvaða hrútur getur farið á hverja kind. Þetta er mjög spennandi og krefjandi verkefni sem verður gaman að taka þátt í og fylgjast með.
Sjúkleg áhugamanneskja um sauðfjárrækt og allt sem henni tengist. Mikið um rollur á þessari síðu og örlítið um hesta og hænur og allskyns sveitalíf. Svo má ekki gleyma fjölskyldunni því það er auðvitað reglulega sett myndir og blogg af börnunum og daglegu lífi okkar.